Handbolti

Aron: Mér leið illa inn á vellinum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Pálmarsson náði ekki að skora gegn Króatíu í kvöld.
Aron Pálmarsson náði ekki að skora gegn Króatíu í kvöld. Vísir/Valli
„Afhroð er bara fínt orð yfir þetta. Þeir jörðuðu okkur frá byrjun og við áttum ekki breik í sókninni,“ sagði Aron Pálmarsson, stórskytta íslenska landsliðsins í handbolta, við Vísi eftir tapið gegn Króatíu í kvöld.

Strákarnir okkar eru úr leik á EM eftir niðurlægjandi tap gegn króatíska liðinu, en ekkert minna en eitt stig dugði til í kvöld.

„Við áttum engin svör við þessari 3-2-1 vörn þeirra og þetta var búið eftir korter,“ sagði Aron sem spilaði vafalítið sinn versta landsleik á ferlinum.

Aron skoraði ekki mark úr fimm skotum og tapaði boltanum þrisvar sinnum.

„Við vorum búnir að fara yfir þetta og vissum hvernig vörn þeir spiluðu en þeir gjörsamlega jörðuðu okkur. Mér leið illa að vera inn á og spila á móti þeim í sókninni, ég skal viðurkenna það,“ sagði Aron.

Andleysið virkaði algjört hjá íslenska liðinu í kvöld.

„Fyrir leik var allt í góðu og allir vel stemmdir. Svo fáum við bara tusku í andlitið og maður lítur á stöðuna og sér bara 7-2,“ sagði Aron.

„Þá tökum við leikhlé og reynum að snúa þessu við en þá fer þetta í 11-2. Það tekur helvíti mikið á að sjá þetta gerast og finna fyrir þessu. Þetta var hræðilegt og alveg til skammar hvernig við spiluðum í dag.“

Tapið í dag gerði út um vonir strákanna okkar að komast á Ólympíuleikana í Ríó 2016.

„Við eigum ekki einu sinni séns á að komast á Ólympíuleikana. Það er ömurlegt - alveg hræðilegt. Maður hefði viljað styttra sumarfrí í sumar út af Ólympíuleikunum en maður verður bara að horfa á það í sjónvarpinu. Djöfull á það eftir að vera svekkjandi,“ sagði Aron Pálmarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×