Innlent

Listin ýtir alltaf á ákveðin mörk

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Er sögð pólitískt bitbein í Feneyjum.
Er sögð pólitískt bitbein í Feneyjum. Mynd/Snorri Ásmundsson

„Við höfum verið í svona fram og til baka samtali við yfirvöld í Feneyjum sem endaði með þessari afdrifaríku ákvörðun,“ segir Björg Stefánsdóttir, forstöðukona Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar.

Lögreglan í Feneyjum lokaði Fyrstu moskunni, framlagi Íslands til Feneyjatvíæringsins í ár. Slökkviliðsmenn voru kallaðir á vettvang til að vísa gestum úr byggingunni.

Björg segir að aðgerð borgaryfirvalda í Feneyjum veki ýmsar spurningar um hvað sé hluti af listaverkinu og hvar mörk listarinnar liggja.

„Þetta er spurning um ritskoðun. Hver er það sem ákveður hvað myndlist er?“ spyr Björg.

„Ég tengi þetta við borgarstjórnarkosningarnar sem eru á næstunni. Þarna eru pólitísk öfl að reyna að nýta sér listina til að ná sér í atkvæði,“ segir Unnar Örn Auðarson myndlistarmaður.

„Listin ýtir auðvitað alltaf á ákveðin mörk, sama hvort það er pólitík eða smekkur fólks. Rök borgaryfirvalda fyrir lokuninni eru að þarna sé ekki á ferðinni list,“ segir Unnar en erfitt er að meta hvað sé list og hvað ekki.

„Þetta er auðvitað framlag Íslands á Feneyjatvíæringinn og verk eftir Christoph Buchel og getur því ekki verið neitt annað en list, sama hvernig viðkomandi öfl reyna að sannfæra fólk um að þetta sé eitthvað annað.“

Unnar segir að yfirstjórn Feneyjatvíæringsins verði nú að bregðast við þessu en um ekkert nema ritskoðun sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×