Innlent

Hundruð múslima báðu í moskunni í gær

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sverrir Agnarsson á gólfi moskunnar í Feneyjum.
Sverrir Agnarsson á gólfi moskunnar í Feneyjum.

„Það gekk frábærlega vel í dag. Full moska og við vorum með íslenskan imam, Ólaf Halldórsson, sem leiddi bæn. Tvö til þrjú hundruð manns voru í moskunni og það voru múslimar af öllum þjóðernum, aðallega túristar. Engin mótmæli voru í gangi og við heyrðum ekkert frá yfirvöldum,“ segir Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, sem staddur er í Feneyjum.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að aðstandendur íslenska verksins óttuðust mótmæli en ekkert varð af þeim í gær þrátt fyrir að auglýsingaspjöldum þess efnis hefði verið dreift um borgina.

„Við erum ekki að svívirða neina kirkju. Þetta er ekki kirkja. Hún var afhelguð af páfa þegar hann var í Feneyjum og hefur verið lager síðustu 40 árin. Það hefur ekki komið nógu skýrt fram, ekkert er verið að vanhelga,“ segir Sverrir sem vill árétta þann misskilning sem hann segir hafa verið ríkjandi í fjölmiðlum og segir fjölmiðla erlendis hafa fiskað upp stemmingu gegn verkinu.

„Pressan hefur verið að kvarta yfir því að þetta sé skipulagt bænahald en þetta bænahald var skipulagt fyrir 1400 árum. Múslimar biðja alltaf á sömu tímum,“ segir hann.

„Við múslimar lítum á það sem svo að heimurinn geti verið moska. Það er engin athöfn til að helga mosku eða vanhelga. Maður getur beðið hvar sem er, líka í listaverki. Þetta er flottasta moska sem ég hef séð í Evrópu og þar af leiðandi biðjum við þar,“ segir Sverrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×