Skoðun

Verndum heilsu barnshafandi kvenna og ófæddra barna

Starfsfólk mæðraverndar skrifar
Nú hefur verkfall BHM staðið í fimm vikur og sér ekki fyrir endann á því. Við sem stöndum að mæðravernd í heilsugæslunni höfum af þessu verulegar og vaxandi áhyggjur.

Verkfall ljósmæðra sem starfa á Kvennadeild LSH hefur orðið til þess að fresta hefur þurft ómskoðunum, framköllunum fæðinga og fyrirfram ákveðnum keisaraskurðum. Þetta veldur skjólstæðingum okkar óþægindum og áhyggjum. Ljósmæður í heilsugæslunni hafa hingað til aðeins farið í hálfsdags verkfall en fari þær í frekara verkfall versnar ástandið enn.

Í verkfalli lífeindafræðinga hefur ekki verið skimað fyrir sýkingum í upphafi meðgöngu eins og venja er. Ekki hefur heldur verið skimað fyrir meðgöngusykursýki eða vanstarfsemi skjaldkirtils hjá konum í áhættuhópum en greining og meðferð þessara sjúkdóma snemma á meðgöngutíma geta komið í veg fyrir alvarleg áhrif þeirra á heilsu og þroska ófædda barnsins. Þessar skimanir eru brýnar fyrir heilsu barnshafandi kvenna og ófæddra barna þeirra og eru einn af hornsteinum mæðraverndar. Afleiðingar þess að ekki er skimað fyrir ákveðnum sjúkdómum á meðgöngu geta verið ófyrirséðar og jafnvel valdið óafturkræfum skaða með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið.

Á Íslandi hefur heilsufar barnshafandi kvenna og ungbarna verið með því besta sem þekkist í heiminum. Má í því sambandi benda á nýjustu skýrslu skýrslu “Save the Children” * en þar kemur fram að Ísland er í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem best er að vera móðir.

Það er afleitt að starfsfólk mæðraverndar í heilsugæslu geti ekki fylgt þeim klínísku tilmælum og verklagsreglum sem byggðar hafa verið upp á síðastliðnum árum og hafa m.a. stuðlað að því að árangur í mæðravernd er eins góður og raun ber vitni. Leggjum ekki heilsu barnshafandi kvenna og ófæddra barna í hættu með því að draga verkfallið á langinn. Við skorum á deiluaðila að ná samningi sem fyrst. Glötum ekki þeim góða árangri í mæðravernd sem við höfum státað af hér á landi.

*Skýrsla Save the Children 2015

Karitas Ívarsdóttir ljósmóðir

Ósk Ingvarsdóttir fæðingalæknir

Ragnheiður Bachmann ljósmóðir

Ragnheiður I. Bjarnadóttir fæðingalæknir

Starfsfólk mæðraverndar, Þróunarsviði

Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins




Skoðun

Sjá meira


×