Fótbolti

Van Gaal: Evrópudeildin er stór keppni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Van Gaal fer yfir málin með blaðamönnum í dag.
Van Gaal fer yfir málin með blaðamönnum í dag. vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, gerir ekki lítið úr Evrópudeildinni en þar spila lærisveinar hans eftir áramót eftir að falla úr Meistaradeildinni.

United hefur fengið mikla gagnrýni frá fyrrverandi leikmönnum liðsins á borð við Rio Ferdinand og Roy Keane fyrir frammistöðu sína gegn Wolfsburg í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar og fyrir tímabilið í heild sinni.

Van Gaal sendi skýr skilaboð á blaðamannafundi sínum í dag, að hann hefur miklar mætur á Evrópudeildinni. United segir hann ekki vera of stórt lið fyrir Evrópudeildina.

Aðspurður hvort hann yrði sáttur með að vinna bara Evrópudeildina svaraði Van Gaal: „Bara? Ég hugsa ekkert þannig.“

„Ég hef áður unnið Evrópudeildina með Ajax á minni fyrstu leiktíð þar og ég var mjög stoltur af því. Fyrir mér er Evrópudeildin stór keppni.“

„Við erum í Evrópudeildinni núna þannig við verðum að vinna hana. Það er ekki auðvelt. Ég get sagt þetta áður en við hefjum leik en enginn hlustar á mig. Það vill enginn hlusta því lið eins og United verður að vinna,“ segir Louis van Gaal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×