Innlent

Vatnamælingamenn flúðu úr skála við Sveinstind

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegurinn að bænum Skaftárdal síðdegis í gær. Þar er ófært.
Vegurinn að bænum Skaftárdal síðdegis í gær. Þar er ófært. VÍSIR/Friðrik Þór Halldórsson
Vatnamælingamenn Veðurstofu Íslands, sem héldu til við Sveinstind, yfirgáfu skálann í gærkvöldi þar sem hlaupvatnið úr Skaftá var komið upp að dyrum skálans. Ákváðu þeir í staðinn að slá upp tjaldi fjær ánni, þar sem þeir gistu í nótt.

Er þetta til marks um þann mikla ham sem hlaupinn er í Skaftá. Á sama tíma virtist sem bilun væri komin upp í mælitækjum Veðurstofunnar við Sveinstind og var því óvissa um þróun hlaupsins og hvað væri að gerast í Skaftá á hálendinu. 

Í byggð hefur ofsi hlaupsins snaraukist frá því í gærkvöldi. Þannig var farvegur Eldvatns, kvíslar Skaftár við Ása, orðinn bakkafullur í morgun, og í gljúfrinu neðan brúarinnar, þar sem bein fréttaútsending Stöðvar 2 var í gærkvöldi, slettist áin nú upp á bakkann.

Lögreglumennirnir Sveinn Rúnarsson og Víðir Reynisson fóru í gærkvöldi í eftirlitsferð áleiðis í Hólaskjól ofan Skaftártungu og sáu að þar flæddi hlaupvatn yfir veginn. Enn fremur könnuðu þeir veginn að bæjunum Búlandi og Hvammi og þar var vatnið að byrja að leka inn á veginn skammt frá Hvammi. Áður hafði vegurinn að bænum Skaftárdal rofnað og orðið ófær.


Tengdar fréttir

Verður stærsta Skaftárhlaup sem sögur fara af

Aldei hefur mælst eins hröð rennslisaukning í Skaftárhlaupi og í gær. Allt stefnir í stærsta flóð frá því sambærilegar mælingar hófust. Hættustigi lýst yfir. Mælir FutureVolc-verkefnisins safnar ómetanlegum upplýsingum enn og aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×