Fótbolti

Gamli FH-ingurinn afgreiddi Færeyja-Víkinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson. Vísir/Getty
Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í norska liðinu Rosenborg sóttu sigur til Færeyja í forkeppni Evrópudeildar UEFA í kvöld.

Rosenborg vann þá 2-0 útisigur á Víkingi frá Götu en leikurinn fór fram Svangaskarð-vellinum í Tóftum.

Rosenborg, sem er á toppnum í norsku úrvalsdeildinni, er því í fínum málum fyrir seinni leikinn sem fer fram í Þrándheimi í næstu viku.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan tímann í vörn Rosenborg og í markinu stóð André Hansen, fyrrum markvörður KR.

Alexander Toft Söderlund, fyrrum leikmaður FH í Pepsi-deildinni, var hetja síns liðs í kvöld en hann lék á Íslandi sumarið 2009.

Söderlund kom inná sem varamaður á 64. mínútu leiksins og skoraði bæði mörk norska liðsins á síðustu átta mínútum. Það fyrra kom á 82. mínútu og það síðara á annarri mínútu í uppbótartíma.

Alexander Toft Söderlund hefur skorað 13 mörk í 14 leikjum í norsku deildinni í sumar og skoraði mark liðsins í 1-1 jafntefli við Molde um síðustu helgi.

Kåre Hedley Ingebrigtsen, þjálfari Rosenborg, ákvað að hvíla hann í þessum leik en var tilneyddur til að senda hann inn á völlinn í seinni hálfleiknum. Það skilaði sér í tveimur mörkum og frábærum úrslitum fyrir seinni leikinn í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×