Sport

Titillinn tekinn af Mayweather

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
WBO-hnefaleikasambandið hefur ákveðið að Floyd Mayweather sé ekki lengur heimsmeistari sambandsins í veltivigt. Mayweather vann titilinn með því að hafa betur gegn Manny Pacquaio í einum stærsta bardaga síðustu ára í maí.

Ástæðan er sú að Mayweather fór ekki eftir reglum sambandsins. Hann hafði frest í dag til að greiða 200 þúsund Bandaríkjadali í gjöld fyrir að fá titilinn viðurkenndan og gefa eftir tvo titla sína í léttveltivigt.

Það samræmist ekki reglum hnefaleikasambanda að leyfa hnefaleikamönnum að vera meistari samtímis í meira en einum þyngdarflokki. Öllu jöfnu fá kappanir tíu daga til að ákveða hvorum titlinum þeir vilja halda en Mayweather hefur haft tvo mánuði.

Mayweather er enn ósigraður á löngum ferli sínum en með sigrinum á Pacquaio varð hann meistari í þremur af fjórum stærstu hnefaleikasamböndum heims. Eftir bardagann lofaði hann því að gefa eftir titla sína til að gefa yngri hnefaleikamönnum tækifæri.

Hann hefur alls unnið ellefu heimsmeistaratitla í fimm mismunandi þyngdarflokkum á nítján ára ferli sínum. Hann hyggst berjast næst í byrjun september en ekki hefur verið tilkynnt hver andstæðingur hans verður. Mayweather mun svo hætta eftir bardagann.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×