Fótbolti

Danir vilja halda úr­slita­keppni Þjóða­deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er jafnan mikil stemmning á leikjum danska landsliðsins á Parken.
Það er jafnan mikil stemmning á leikjum danska landsliðsins á Parken. Getty/David Lidstrom

Danska knattspyrnusambandið hefur sótt um það hjá Knattspyrnusambandi Evrópu að fá að hýsa úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar í júní á næsta ári.

Danir eru ekki komnir í undanúrslit keppninnar en þeir tryggðu sér sæti í átta liða úrslitunum með því að ná öðru sæti í sínum riðli í A-deildinni.

„Við upplifðum öll saman þá miklu hátíð sem myndaðist þegar við vorum gestgjafar á leikjum á EM 2021 á Parken. Að fá að halda úrslitin næsta sumar yrði frábært tækifæri til að sameina þjóðina að baki danska karlalandsliðinu og búa til frábært fótboltasumar í Danmörku,“ sagði Erik Brøgger Rasmussen, framkvæmdastjóri DBU, við DR.

Nú eru í fyrsta sinn átta liða úrslitin en sigurvegararnir í þeim tryggja sér sæti í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar sem fer öll fram á sama stað.

UEFA mun velja tvo mögulega leikstaði fyrir úrslitaleikina. Ef landslið hvorugar þjóðarinnar kemst áfram í undanúrslitin þá verða úrslitin spiluð á hlutlausum velli.

Dregið verður á morgun í átta liða úrslitin. Sigurvegarar riðlanna í A-deildinni, Portúgal, Þýskaland, Frakkland og Spánn dragast þá á móti Danmörku, Hollandi, Ítalíu og Króatíu. Þjóðir sem voru saman í riðli geta þó ekki dregist saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×