Enski boltinn

Rann­sókn á hegðun David Coote enn í fullum gangi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Coote verður ekki með flautuna í ensku úrvalsdeildinni á næstunni.
David Coote verður ekki með flautuna í ensku úrvalsdeildinni á næstunni. Getty/Rob Newell

Enska úrvalsdeildin í fótbolta fer aftur af stað um næstu helgi en þar verður hvergi sjáanlegur einn þeirra dómara sem knattspyrnuáhugafólk sér vanalega á leikjum deildarinnar.

Ensku dómarasamtökin, PGMOL, segja að rannsóknin á hegðun úrvalsdeildardómarans David Coote, sé enn í fullum gangi. ESPN forvitnaðist um stöðu málsins.

Coote var settur í leyfi á meðan rannsóknin stendur yfir en framhaldið kemur ekki í ljós fyrr en aganefnd enska sambandsins er búin að taka málið fyrir. Hún þarf auðvitað að fá niðurstöður úr rannsókninni til að taka ákvörðun.

Hinn 42 ára gamli Coote kom sér fyrst í vandræði þegar birtist myndband á netinu af honum að tala illa um Liverpool og fyrrum knattspyrnustjóra þess Jürgen Klopp. Hann kallaði Klopp ljótum nöfnum.

Aðeins tveimur dögum síðar kom fram annað myndband. Í því myndbandi tók Coote sig sjálfur upp og sendi vini sínum í gegnum WhatsApp.

Í myndbandinu virðist hann sjúga hvítt púður upp í nefið en myndbandið var tekið upp á hóteli UEFA, daginn eftir að Coote vann sem myndbandsdómari á leik Portúgals og Frakkland í átta liða úrslitum.

Knattspyrnusamband UEFA hefur einnig sett Coote í leyfi og sambandið hefur einnig hafið sína eigin rannsókn á hegðun dómarans.

Talsmaður PGMOL segir dómarasamtökin taka málið og rannsóknina mjög alvarlega. Samtökin ætli líka að hugsa um velferð dómarans. Coote á auðvitað mjög erfitt í þessum stormi sem hann er staddur í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×