Íslenski boltinn

Goðsögnin Óli Þórðar: Skagaliðið 93 betra en Stjarnan 2014

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Þórðarson, sjöfaldur Íslandsmeistari með ÍA, er sá næsti sem tekinn verður fyrir í þáttunum Goðsagnir efstu deildar á Stöð 2 Sport. Þátturinn verður frumsýndur á föstudagskvöldið klukkan 21.00.

Ólafur spilaði með mörgum góðum Skagaliðum á löngum ferli, en liðið 1993 er vafalítið það besta og af mörgum talið það besta í íslenskri knattspyrnusögu.

Skagaliðið 1993 vann deildina með yfirburðum. Það vann 16 leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði aðeins einum leik. Markatalan var 62-16. Þá unnu Skagamenn lið FH sem endaði í öðru sæti tvisvar sinnum með markatölunni 10-0.

Stjarnan vann Íslandsmótið í fyrra án þess að tapa leik og gerði það í tólf liða deild. Hún vann fimmtán leiki og gerði sjö jafntefli. Eðlilega hafa menn því spurt sig hvort Stjarnan 2014 sé besta lið sögunnar. Stjarnan vann þó ekki bikarinn eins og ÍA gerði 1993 en fór lengra en nokkurt annað íslenskt lið í Evrópukeppni.

Aðspurður í tökum á þættinum um hvort liðið sé betra hló Ólafur og sagði: „Þarna er náttúrlega ólíku saman að jafna. Ég er samt ekki í nokkrum vafa um það, að þetta 93-lið á Skaganum er það besta sem spilað hefur í íslensku deildinni.“

Myndbrotið má sjá hér að ofan en þátturinn verður frumsýndur sem fyrr segir á föstudagskvöldið klukkan 21.00 á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×