Fótbolti

Gylfi Þór fékk fugl á frægustu golfholu í heimi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er frábær kylfingur og nýtir frítímann í að spila golf.
Gylfi Þór Sigurðsson er frábær kylfingur og nýtir frítímann í að spila golf. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í fótbolta og leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni, er í stuttu fríi í Bandaríkjunum að spila golf.

Gylfi á góða hvíld svo sannarlega skilið eftir frábært tímabil á Englandi þar sem hann skoraði sjö mörk og gaf tíu stoðsendingar í deildinni.

Sjá einnig:Aðeins níu leikmenn komu að fleiri mörkum en Gylfi í ensku úrvalsdeildinni

Hin ástríða Gylfa fyrir utan fótboltann er golfið, en hann er frábær kylfingur. Bróðir hans er auðvitað kylfingurinn Ólafur Már Sigurðsson, fyrrverandi klúbbmeistari GR.

Þeir félagarnir spiluðu TPC Sawgrass-völlinn í Flórída í vikunni, en 17. holan þar er sú frægasta í heiminum og ein sú erfiðasta.

Golfáhugamenn þekkja hana vel, en flötin liggur á eyju sem afar erfitt er að hitta. Fara margir af bestu kylfingum heims flatt á holunni og hitta ekkert nema vatn.

Gylfi aftur á móti skellti sér beint á flöt og sökkti pútti fyrir fugli. Frá þessu greinir hann á Instagram-síðu sinni.

Hann fékk bæði fugl á 16. og 17. holu en lenti svo í sprengju á lokaholunni sem hann spilaði á átta höggum.

Gylfi er væntanlegur til landsins á næstu dögum ásamt öðrum íslenskum landsliðsmönnum, en þeir eiga fyrir höndum gríðarlega mikilvægan landsleik gegn Tékklandi í undankeppni EM 2016 á Laugardalsvellinum 12. júní.

Birdie 16th, birdie 17th but 8 on the 18th

A photo posted by Gylfi Sigurdsson (@gylfisig22) on




Fleiri fréttir

Sjá meira


×