Innlent

Landhelgisgæslan tók vel á móti Stoltenberg

Stefán Árni Pálsson skrifar
Flugvél belgíska flughersins lenti með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, og fylgdarlið hans á Keflavíkurflugvelli í morgun þar sem fulltrúar utanríkisráðuneytisins tóku á móti honum.

Hans fyrsta verk var að kynna sér varnartengd verkefni Landhelgisgæslu Íslands á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og loftrýmisgæslu Bandaríkjanna, sem fram fer nú um stundir undir merkjum Atlantshafsbandalagsins.

Framkvæmdastjórinn heilsar tengilið NATO á Íslandi og starfsmönnum Landhelgisgæslunnar.
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar tók á móti framkvæmdastjóranum og fór með hann og hans fylgdarlið um Öryggissvæðið þar sem öll helstu verkefni voru kynnt, þar með talið dagleg framkvæmd verkefna sem þar fer fram í samvinnu við stofnanir bandalagsins.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að heimsókn sem þessi sé mikilvæg í þeim tilgangi að sýna yfirmönnum Atlantshafsbandalagsins hvernig dagleg framkvæmd öryggis- og varnartengdra verkefna fari fram á Íslandi en fjöldi mannvirkja og búnaðar á Öryggissvæðunum eru á eignalista bandalagsins og hefur bandalagið styrkt framkvæmdir við viðhald og rekstur þeirra. 

Framkvæmdastjórinn heimsótti Bandaríkjamenn sem eru nú hér vegna loftrýmisgæslu Bandaríkjanna sem fram fer nú um þessar mundir undir merkjum Atlantshafsbandalagsins á starfssvæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli.
Heimsókn framkvæmdastjórans til Landhelgisgæslunnar endaði í stjórnstöð NATO á Íslandi. Þar sér Landhelgisgæslan um framkvæmd samþætts loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu í samvinnu við þær þjóðir sem eru hér á landi á hverjum tíma og aðgerðarstjórnstöð NATO (Combined Air Operations Center) í Uedem í Þýskalandi.

Stjórnstöðin hér á landi er auk þess tengd stjórnstöðvum NATO í Norður Ameríku, Noregi, Danmörku og Bretlandi.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×