Körfubolti

Naut þess að fylgjast með litla bróður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Matthías Orri með boltann fyrir ÍR gegn uppeldisfélaginu KR.
Matthías Orri með boltann fyrir ÍR gegn uppeldisfélaginu KR. Vísir/Daníel
„Það var rosalega gaman að fylgjast með honum,“ segir Jakob Örn Sigurðarson, landsliðsmaður í körfubolta, um bróður sinn, Matthías Orra Sigurðarson, sem spilaði með ÍR í Dominos-deildinni í vetur og stóð sig frábærlega á sínu fyrsta ári sem byrjunarliðsmaður í efstu deild.

Matthías Orri fékk stórt hlutverk í ÍR-liðinu sem leikstjórnandi en hann spilaði ríflega 35 mínútur í leik og skoraði 16,8 stig að meðaltali auk þess sem hann var 7. stoðsendingahæstur í deildinni með 6,7 slíkar að meðaltali í leik.

„Ég er rosalega ánægður fyrir hans hönd. Hann var svolítið vonsvikinn í byrjun að geta ekki spilað fyrir KR en hann má vera stoltur af tímabilinu og ég held hann hafi komið mörgum á óvart. Mér finnst þetta mjög góð frammistaða á fyrsta tímabili,“ segir Jakob Örn um hinn 19 ára gamla bróður sinn.

ÍR-liðið spilaði einstaklega vel eftir áramót og var með fjórða besta árangurinn í deildinni auk þess sem það fór alla leið í bikarúrslitin þar sem það tapaði fyrir Grindavík.

„Hann fékk mikið traust og spilaði mikið fyrir áramót. Þetta var svona upp og niður hjá honum fyrir jól en af því hann fékk að spila mikið varð hann bara betri,“ segir Jakob Örn Sigurðarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×