Innlent

Svörum frestað um mánuð

Freyr Bjarnason skrifar
Geir í Þjóðmenningarhúsinu árið 2012 þegar dómur yfir honum var kveðinn upp.
Geir í Þjóðmenningarhúsinu árið 2012 þegar dómur yfir honum var kveðinn upp. Fréttablaðið/Vilhelm
Innanríkisráðuneytið fékk mánaðarfrest til að svara spurningum Mannréttindadómstóls Evrópu og senda þangað skjöl í máli Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands.

Ráðuneytið átti upphaflega að skila efninu fyrir hönd íslenska ríkisins til Strassborgar 6. mars en óskaði eftir fresti, sem það fékk til 7. apríl. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins úr ráðuneytinu var svo tímafrekt að þýða öll dómskjölin að ákveðið var að sækja um frestinn.

Spurningarnar sem um ræðir eru sex talsins. Að auki var stjórnvöldum gert að útvega Mannréttindadómstólnum enska þýðingu af niðurstöðum Landsdóms í málinu sem og öðrum ákvörðunum eða niðurstöðum sem því tengjast.

Geir höfðaði mál gegn íslenska ríkinu árið 2012 vegna óréttlátrar málsmeðferðar en hann var ákærður af Alþingi 2010 fyrir vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins.

Geir var sýknaður í fimm ákæruliðum af sex eða þeim var vísað frá. Hann var sakfelldur fyrir að hafa ekki sett „mikilvæg stjórnarmálefni“ með formlegum hætti á dagskrá ríkisstjórnarfunda eða „tekið þau upp“ á þeim vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×