Erlent

Sony skipar fjölmiðlum að fjalla ekki um lekann

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðal gagna í lekanum var söguþráður nýrrar myndar um James Bond.
Meðal gagna í lekanum var söguþráður nýrrar myndar um James Bond. Vísir/AFP
Lögmenn kvikmyndadeildar Sony hafa sent fjölmiðlum bréf þar sem farið er fram á að hætt verði að fjalla um stuld á vandræðalegum gögnum úr tölvukerfum fyrirtækisins. Sony fer einnig fram á að þeir sem séu með upplýsingarnar eða hluta þeirra eyði þeim úr tölvum sínum.

Verði fjölmiðlar ekki við því muni fyrirtækið höfða mál gegn þeim.

Gögnunum var stolið í árás hóps hakkara sem kalla sig Guardians of Peace, en árásin felldi tölvukerfi fyrirtækisins svo starfsmenn þess þurftu að nota penna og blöð við vinnu sína.

Á vef Guardian kemur fram að í gögnum hafi verið handrit að kvikmyndum, óbirtar kvikmyndir, persónulegar upplýsingar eins og sjúkraskýrslur leikara og starfsmanna Sony.Þar að auki voru þar launaseðlar, notendanöfn, lykilorð og aragrúi tölvupósta.

Hakkararnir hafa hótað því að birta frekari gögn frá Sony um jólin, en þeir hafa einnig lofað að birta ekki persónulegar upplýsingar um starfsmenn Sony. Til þess þurfa starfsmennirnir að senda þeim nafn sitt og starfstitil.

Enn er óljóst hver stóð að baki árásinni, en Norður-Kórea liggur sterklega undir grun. Yfirvöld þar hafa þó neitað því. Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur gefið út að árásin hefði brotið niður 90 prósent öryggisveggja, þar á meðal ríkisstofnanna.

Þrátt fyrir að Norður-Kórea neiti fyrir að hafa staðið að baki árásinni, segja þeir hana hafa verið „réttláta“. Sony mun á næstunni birta kvikmyndina The Interview, sem fjallar um tvo sjónvarpsmenn sem fá það verkefni að ráða Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu af dögum. Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa kallað myndina stríðsyfirlýsingu og stuðningsyfirlýsingu við hryðjuverk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×