Fótbolti

Ronaldo, Messi og Neuer keppa um Gullbolta FIFA 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo táraðist þegar hann fékk Gullboltann í fyrra.
Cristiano Ronaldo táraðist þegar hann fékk Gullboltann í fyrra. Vísir/Getty
FIFA tilkynnti í kvöld hvaða þrír leikmenn koma til greina sem besti leikmaður heims árið 2014 en þá var opinberað hvaða þrír kappar keppa um Gullbolta FIFA í ár.

Í október gaf FIFA út 23 manna lista af leikmönnum sem komu til greina í ár og nú er ljóst hvaða þrír urðu efstir í kjörinu. Það eru fyrirliðar landsliða, landsliðsþjálfarar og útvaldir blaðamenn sem kjósa um besta fótboltamann heims.

Í ár komust þeir Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid, Lionel Messi hjá Barcelona og Manuel Neuer hjá Bayern München í úrslitin.

Manuel Neuer varði ekki aðeins mark Bæjara heldur var hann einnig heimsmeistari með Þýskalandi á HM í Brasilíu í sumar. Neuer vann einnig tvöfalt með Bayern í Þýskalandi.

Cristiano Ronaldo er talinn vera sigurstranglegastur í kjörinu að þessu sinni en hann vann þessi verðlaun einnig í fyrra.

Lionel Messi er hans helsti keppninautur en Messi fékk Gullboltann 2009, 2010, 2011 og 2012.

Cristiano Ronaldo hefur raðað inn mörkum á árinu og vann Meistaradeildina með Real Madrid í vor. Messi vann ekki stóran titil með Barcelona en hjálpaði Argentínu að vinna silfur á HM í fótbolta í Brasilíu.

Hin þýska Nadine Kessler, hin bandaríska Abby Wambach og hin brasilíska Marta eru tilnefndar hjá konunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×