Íslenski boltinn

Jói Kalli: Hef ekki áhuga á að falla aftur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson gekk frá eins árs samningi við Fylki og spilar með liðinu í Pepsi-deild karla í fótbolta á næstu leiktíð.

„Um leið og Fylkir setti sig í samband við mig og eftir fyrstu fundina leist mér strax vel á það sem er í boði hérna og framtíðina hjá Fylki,“ sagði Jóhannes Karl við íþróttadeild eftir undirskriftina.

„Það var alveg áhugi frá fleiri liðum, en strax eftir fyrsta fund hér þá leist mér vel á þetta. Fylkir setti líka mikinn metnað í að fá mig. Ég kunni að meta það og ákvað að ganga frá við þá strax.“

Jóhannes Karl féll með Fram í fyrra og ÍA árið þar áður. Stefnan er að gera betur í sumar.

„Síðustu tvö tímabil hafa verið svolítil vonbrigði og það hefur ekki verið neitt sérstaklega gaman að taka þátt í tveimur föllum. Það er eitthvað sem ég hef ekki áhuga á að gera aftur,“ sagði Jóhannes Karl.

„Ég er alls ekkert að gefast upp. Það er hugur í mér og ég ætla að taka næsta tímabil með Fylki með trompi.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×