Íslenski boltinn

Guðjón hafði betur í Hæstarétti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/GVA/Anton
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness og dæmt að knattspyrnudeild Grindavíkur skuli greiða Guðjóni Þórðarsyni 8,4 milljónir króna í skaðabætur fyrir vangoldin laun.

Knattspyrnudeild Grindavíkur var einnig dæmd til að greiða Guðjóni 500 þúsund krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti og 400 þúsund fyrir málskostnað í Héraðsdómi.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Grindvíkingar hefðu sagt upp samningi við Guðjón á ólögmætan hátt í október 2012. Knattspyrnudeild Grindavíkur áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar sem úrskurðaði að Héraðsdómur skyldi vera óraskaður.

Guðjón tók við starfi knattspyrnustjóra hjá Grindavík í nóvember 2011. Voru starfsskyldur Guðjóns að þjálfa meistaraflokk og 2. flokk karla hjá félaginu. Auk þess skildi hann m.a. aðstoða við markaðssetningu og hjálpa til við að útvega styrktaraðil. Mánaðarlaun Guðjóns voru 400 þúsund krónur auk afnot af íbúð í Grindavík, bifreið til afnota, bensínkort og 10 þúsund krónur í símakostnað á mánuði.

Karlalið Grindavíkur hafnaði í langneðsta sæti Pepsi-deildar karla sumarið 2012 og féll því í 1. deild en deila aðilanna hófst nokkrum dögum síðar. Nánar má lesa um málsatvik í fréttinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×