Íslenski boltinn

Segir það vera sín stærstu mistök að hafa ráðið Guðjón

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Vísir/Daníel
Jónas Þórhallsson formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur, segir það í samtali við Víkurfréttir hafa verið sín stærstu mistök að ráða Guðjón Þórðarson sem þjálfar meistaraflokks Grindavíkur.

Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness og dæmdi að knattspyrnudeild Grindavíkur skuli greiða Guðjóni Þórðarsyni 8,4 milljónir króna í skaðabætur fyrir vangoldin laun.

„Það voru vonbrigði en þetta eru okkar örlög. Þetta er bara búið og gert. Við þurfum að fara í aðgerðir og laga til í rekstrinum. Svona hugsjónastarf má ekki við svona skakkaföllum,“ sagði Jónas Þórhallsson í viðtali við Víkurfréttir.

Jónas viðurkennir að hann sjái eftir að hafa samið við Guðjón Þórðarson á sínum tíma en þetta var í þriðja sinn sem hann reyndi að fá Guðjón til að þjálfa Grindavíkurliðið.

Grindavík réði Guðjón í nóvember 2011 en í október var Guðjóni sagt upp hjá BÍ/Bolungarvík af fjárhagsástæðum. Jónas segir að Heimir Hallgrímsson, fráfarandi þjálfari ÍBV, hafi verið nálægt því að verða þjálfari Grindvíkinga en Eyjamaðurinn gerðist í staðinn aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins.

„Ég vildi ráða hann 1999 þá fór hann til Stoke. Árið 2005 sveik hann okkur og fór til Keflavíkur, þá fékk ég slæma mynd af honum. Þegar við svo loks réðum hann þá var ég á leiðinni að ráða Heimi Hallgrímsson. Þá var mér var tjáð að Guðjón vildi koma til Grindavíkur," sagði Jónas og bætti við:

„Það var búið að benda mér á ýmsa galla hjá manninum en hann hafði árangur í farteskinu. Ég hafði samt trú á að hann gæti gert góða hluti hér og fór með það inn á borð til stjórnarinnar og þar var það samþykkt. Ég ber fulla ábyrgð á þessu og ætla ekki að benda á einn eða neinn. Þetta eru mín stærstu mistök og ég reyni ekki að koma þeim á einn eða neinn. Ég ber ekki kala til eins né neins,“ segir Jónas í viðtalinu sem má finna allt hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×