Innlent

Rúmlega 1.200 loftárásir í vikunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Ísraelsher hefur gert rúmlega 1.200 loftárásir á Gaza svæðinu í vikunni sem nú er að líða. Æðsti yfirmaður hersins segir árásirnar gerðar til að koma í veg fyrir að Hamas samtökin skjóti eldflaugum á Ísrael. Hershöfðinginn Motti Almoz segir að árásum muni fjölga og þá sérstaklega á norðurhluta svæðisins.

„Við munum ráðast á það svæði af miklum krafti á næstu 24 klukkutímum.“ Ástæðuna sagði hann vera að fjöldi meðlima Hamas væru á því svæði og hvatti hann íbúa þess til að flýja.

Frá Innanríkisráðuneyti Gaza komu þau skilaboð að fólk ætti alls ekki að flýja og halda sér heima. Um væri að ræða sálfræðilegan hernað Ísraelsmanna sem væru að reyna að skapa ringulreið.

Skömmu eftir tilkynningu Ísraelshers í dag var gerð loftárás á heimili lögreglustjóra Gaza og segja embættismenn í Palestínu að minnst 18 hafi fallið og 50 særst. Að fjöldi manns hafi verið að yfirgefa mosku á svæðinu eftir kvöldbæn og óttast menn að fólk sé enn fast undir rústunum.

Hamas samtökin hafa gert rúmlega 700 eldflauga- og sprengjuvörpuárásir á Ísrael og segjast ekki ætla að vera fyrstir til að lýsa yfir vopnahléi.

Skutu yfir landamæri Líbanon

Nú í kvöld gerði Ísraelsher stórskotaárás á Líbanon, en þeir segja eldflaugum hafa verið skotið þaðan. Engir féllu í árásunum en Ísraelar óttast að vígahópar í Líbanon ætli sér að opna aðra víglínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×