Innlent

„Súrnun sjávar ógnar efnahag Íslands“

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/gva

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands var haldinn í Reykjavíkur Akademíunni í gær þar þar sem kom fram ályktun um að stjórnvöldum beri að grípa til aðgerða gegn súrnun sjávar vegna sívaxandi losunar koltvísýrings í andrúmsloftið.

„Súrnun sjávar norður af Íslandi mælist nú tvöfalt hraðari en sunnar í Atlantshafi.

Slíkar aðgerðir kalla á alþjóðlegt samstarf. Þær þjóðir sem standa Íslendingum næst í baráttunni við loftslagsbreytingar eru þær sem byggja láglendar eyjar á borð við Seychelles-eyjar og Kiribati,“ segir í ályktuninni.

Einnig kemur fram að súrnun sjávar ógni efnahag Íslands ekki síður en hækkun sjávaryfirborðs ógni tilveru þeirra sem byggja láglend eyríki í Kyrrahafi, Indlandshafi og Karíbahafi.

„Vísindamenn hér heima, Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og á vegum Norðurskautsráðsins hafa bent á að afleiðingarnar fyrir fjölbreytni lífríkis í hafinu og fæðukeðju nytjastofna geta orðið afar neikvæðar. Ekki skiptir síður máli að við aukna súrnun missir hafið hæfileika sinn til kolefnisbindingar, sem eykur enn á loftslagsvandann.“

Mikilvægt sé að efla rannsóknir á þessu sviði, bæði á alþjóðavísu og á hafsvæðinu kringum Ísland.

„Til að Íslendingar geti beitt sér í alþjóðasamstarfi gegn súrnun sjávar verður þjóðin að hafa trúverðugleika á sviði loftslagsmála. Áform um olíuvinnslu á Drekasvæðinu ganga þvert á fyrri stefnu Íslands í loftslagsmálum og rýra traust á Íslandi sem forystuafli gegn

loftlagsbreytingum. Aðalfundur Náttúruverndarsamtakanna beinir því til stjórnvalda að leggja af áform sín um olíuvinnslu á Drekasvæðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×