Innlent

Píratar fara fram á endurtalningu í Hafnarfirði

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Píratar hafa óskað eftir endurtalningu í Hafnarfirði.
Píratar hafa óskað eftir endurtalningu í Hafnarfirði.
Píratar í Hafnarfirði hafa óskað eftir endurtalningu við kjörstjórn.

Aðeins munaði sex atkvæðum á Brynjari Guðnasyni oddvita Pírata og Öddu Maríu Jóhannsdóttur þriðja manni Samfylkingarinnar eða 0,8 prósentum.

Brynjar Guðnason oddviti Pírata vildi ekki tjá sig við fréttastofu Vísi þegar eftir því var leitað.

Jóna Ósk Guðjónsdóttir, formaður kjörstjórnar í Hafnarfjarðarkaupstað, staðfestir að henni hafi borist erindi þess efnis um hádegisbil í dag.

„Það munaði örfáum atkvæðum á þriðja manni Samfylkingarinnar og fyrsta manni Pírata og í því ljósi óska þeir eftir endurtalningu,“ segir Jóna Ósk.

Hún sagðist núna vera að reyna að ná í kjörstjórnina til að kalla hana saman til fundar svo að hægt sé að taka afstöðu til beiðninnar.

„Það er náttúrulega búið að ljúka kjörfundi og loka gerðabók og undirrta fundargerð um að þessu væri lokið. Þess vegna þarf að boða sérstaklega til fundar til að taka þetta fyrir.“

Aðspurð um hvort beiðnin verði samþykkt segist Jóna ekki geta svarað fyrir kjörstjórnina alla.

„Án ábyrgðar finnst mér það líklegra heldur en hitt, en þetta er ekki bara mín ákvörðun heldur kjörstjórnarinnar í heild.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×