Íslenski boltinn

Upprifjun: Tvær markasúpur Keflavíkur og FH í Krikanum | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Björn Daníel Sverrisson þrumar að marki en Bjarni Hólm er til varnar.
Björn Daníel Sverrisson þrumar að marki en Bjarni Hólm er til varnar. vísir/anton
Keflavík tekur á móti FH klukkan 20.00 í 5. umferð Pepsi-deild karla í fótbolta í kvöld en leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Honum, sem og öllum sex leikjum kvöldsins, verða svo gerð skil í Pepsi-mörkunum klukkan 22.00.

Keflavík hefur ekki unnið FH í deildinni í síðustu níu leikjum en FH-ingar hafa unnið síðustu fimm leiki liðanna í Pepsi-deildinni. Síðast vann Keflavík FH í deildarleik í fyrstu umferðinni 2009.

Liðin voru þá að mætast í fyrsta skipti eftir ótrúlega lokaumferð árið áður þar sem Keflavík kastaði frá sér Íslandsmeistaratitlinum með tapi gegn Fram á heimavelli á sama tíma og FH vann Fylki í Árbænum.

Keflavík vann þann leik, 1-0, með marki Hólmars Arnar Rúnarssonar, sem nú leikur með FH, en Davíð Þór Viðarsson var rekinn af velli strax á 19. mínútu leiksins. Keflavík vann FH aftur, 3-1, í bikarnum sama ár en hefur síðan ekki tekist að vinna Hafnafjarðarliðið.

Ólafur Páll Snorrason með boltann en Guðmundur Steinarsson fylgir honum hvert fótmál.vísir/anton
Liðin skildu jöfn, 2-2, í fjörugum leik í Kaplakrika þetta sama sumar árið 2009 en myndband af þeim leik með lýsingu Guðjóns Guðmundssonar og Leifs Sigfinns Garðarssonar má sjá neðst í fréttinni.

Guðjón Árni Antoníusson, fyrirliði FH, kom uppeldisfélagi sínu Keflavík yfir í leiknum á 42. mínútu áður en Davíð Þór Viðarsson og Atli Guðnason skoruðu sitthvort markið með skalla eftir hornspyrnur Tryggva Guðmundssonar, 2-1.

Heimamenn höfðu þó ekki sigur að þessu sinni því Magnús Sverrir Þorsteinsson jafnaði leikinn fyrir Keflavík á 90. mínútu eftir laglegan undirbúning Færeyingsins Símuns Samuelsens.

Þrír verðandi FH-ingar: Guðjón Árni, Hólmar Örn Rúnarsson og AlenSutej, voru allir í liði Keflavíkur í leiknum en í liði FH var t.a.m. Valsarinn Matthías Guðmundsson. Hann fiskaði vítaspyrnu sem nafna hans, Matthías Vilhjálmsson, tókst ekki að skora úr.

Til að hita enn frekar upp fyrir leikinn í kvöld fylgir einnig myndband af átta marka veislu liðanna í Krikanum frá árinu 2010. Þann leik vann FH, 5-3.

Atli Viðar Björnsson og BjörnDaníelSverrisson skoruðu báðir tvívegis fyrir FH í leiknum en Haukur Ingi Guðnason, núverandi aðstoðarþjálfari Fylkis, BjarniHólmAðalsteinsson, sem er án félags í dag, og Brynjar Örn Guðmundsson skoruðu mörk Keflavíkur.

FH - Keflavík 2-2 (2009) FH - Keflavík 5-3 (2010)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×