Íslenski boltinn

Kæra fólsku­legt brot í Kaplakrika: „Ein­beittur brota­vilji“

Aron Guðmundsson skrifar
Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, fékk að finna fyrir því í leik FH og Tindastóls á Kaplakrikavelli í gærkvöldi.
Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls, fékk að finna fyrir því í leik FH og Tindastóls á Kaplakrikavelli í gærkvöldi. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Fólsku­legt brot sem átti sér stað í leik FH og Tinda­stóls, en fór fram hjá dómara­t­eyminu, í Bestu deild kvenna í fót­bolta í gær­kvöldi hefur verið kært til Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands. Þetta stað­festir Adam Smári Her­manns­son, for­maður knatt­spyrnu­deildar Tinda­stóls í sam­tali við Vísi.

Ljótt at­vik átti sér stað í fyrri hálf­leik í um­ræddum leik í Bestu deild kvenna í gær þegar að Bryn­dís Rut Haralds­dóttir, fyrir­liði Tinda­stóls, varð fyrir fólsku­legu oln­boga­skoti Breu­kelen Woodard, leik­manns FH. At­vikið fór fram hjá dómara­t­eymi leiksins en Bryn­dís lá óvíg eftir í dá­góða stund áður en dómari leiksins áttaði sig á stöðunni.

„Þetta er ekki ó­vilja­verk. Þetta er vilja­verk,“ segir Adam, for­maður knatt­spyrnu­deildar Tinda­stóls í sam­tali við Vísi í kvöld. „Hún beitir líkamanum meira að segja þannig, þegar að hún gefur höggið, á þá leið til að ná krafti í þetta. Það vill þannig til að Bryn­dís er okkar lang aftasti maður á vellinum þegar að þetta gerist og það misstu allir af þessu. Dómarinn stöðvar leikinn loksins þegar að það er öskrað á hann að það væri leik­maður liggjandi á jörðinni. Dómara­t­eymi sem hélt engri línu í leiknum.“

Klippa: Fólskulegt brot í Kaplakrika: „Ógeðslega ljótt að sjá“

Kæra inn á borði KSÍ

Sökum þess að at­vikið fór fram hjá öllum í dómarateymi leiksins var engin auka­spyrna dæmd og ekkert spjald fór á loft. Knatt­spyrnu­deild Tinda­stóls ætlar hins vegar ekki að sitja hjá að­gerða­laus í þessu máli.

„Við lögðum inn kæru til KSÍ í dag. Svipað at­vik átti sér stað hér á Sauð­ár­króksvelli á síðasta tíma­bili. Þar sem að akkúrat leik­maður FH gaf leik­manni Tinda­stóls oln­boga­skot. Svona brot viljum við ekki sjá inn á vellinum. Það er eitt að skalla saman eða slæma hendi ó­vart í and­lit. Í þessu at­viki er boltinn í loftinu á leiðinni út af vellinum tölu­vert frá þessu at­viki. 

Þetta er bara ein­beittur brota­vilji. Þær voru búnar að vera kljást fyrr í leiknum og leik­maður FH var bara orðin pirruð á því hvernig Bryn­dís var búin að halda aftur af henni. Það sést langar leiðir á þessu mynd­broti að þetta er ljótt brot. Bryn­dís er úr sveitinni og kallar ekki allt ömmu sína og stóð þetta af sér.“

„Ógeðslega ljótt að sjá“

At­vikið sem og um­ræðurnar í Bestu mörkunum, upp­gjörs­þætti Bestu deildar kvenna, má sjá hér fyrir ofan en þar sagði Helena Ólafs­dóttir, um­sjónar­maður þáttarins að ljótt væri að sjá þetta.

„Þetta er bara fá­rán­legt,“ sagði Helena í Bestu mörkunum. „Þarna er að­stoðar­dómarinn bara í fínni stöðu til að sjá þetta og þetta var rætt í lýsingu leiksins. Opin augu takk fyrir. Þetta er bara ó­geðs­lega ljótt að sjá. “

Bryn­dís Rut, fyrir­liði Tinda­stóls, mætti svo sjálf í við­tal eftir leik þar sem að hún tjáði sig um at­vikið.

„Hún gaf mér oln­boga­skot í and­litið því hún var pirruð. Ég veit að það er hiti í leiknum og allt það en mér finnst dómararnir eiga að vernda leik­menn betur því að höfuð­meiðsli eru al­var­legri en fólk heldur og við erum með leik­menn sem við höfum misst út vegna höfuð­meiðsla. Mér finnst dómarar al­mennt eiga að verja leik­menn betur eins og í þessu at­viki.“

En hefði þetta oln­boga­skot ekki átt að verð­skulda rautt spjald?

„Dæmi hver fyrir sig. Ég þarf að horfa á þetta aftur en ég fékk oln­boga beint í smettið og ég vil meina að þetta hafi verið frekar gróft. Boltinn var hvergi ná­lægt en það þýðir ekkert að pirra sig og það er bara á­fram gakk,“ sagði Bryn­dís Rut að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×