Íslenski boltinn

Vestri stendur við fyrri yfir­lýsingu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Vestra á Kópavogsvelli fyrr í sumar.
Úr leik Vestra á Kópavogsvelli fyrr í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnudeild Vestra stendur við fyrri yfirlýsingu sína, það er að leikmaður liðsins hafi orðið fyrir barðinu á kynþáttaníði í leik Vestra og Fylkis þann 18. júní. KSÍ staðfesti í gær, mánudag, að sambandið myndi ekki aðhafast frekar í málinu.

Eins og Vísir hefur greint frá ákvað Vestri að senda inn kvörtun á Knattspyrnusamband Íslands. Sambandið réðst strax í þá vinnu að reyna afla sér frekari upplýsinga, ræða við dómarateymi og eftirlitsmann leiksins. Einnig voru hinar ýmsu myndbands- og hljóðupptökur skoðaðar. Ekkert af þessu leiddi af sér  nýjar upplýsingar og því ákvað KSÍ að aðhafast ekki frekar í málinu.

„Knattspyrnudeild Vestra stendur við fyrri yfirlýsingu og telur ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt að bregðast við atvikum sem þessum. Vestri unir niðurstöðunni og ber fullt traust til sambandsins við úrlausn slíkra mála,“ segir í yfirlýsingu Vestra sem birt var á vefsíðu félagsins.

„Knattspyrnudeild Vestra hvetur til þess að umræðu um mál sem þessi sé haldið á lofti og mætt af virðingu með opið samtal og fræðslu að leiðarljósi. Félagið mun ekki tjá sig frekar um málavexti,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×