Sport

Fékk fimm og hálfa milljón króna aukalega

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Bardagakappinn Gunnar Nelson fékk 50 þúsund dali í verðlaun fyrir frammistöðu kvöldsins í UFC-bardaga sínum gegn Omari Akhmedov í London í kvöld. Gunnar mætti á blaðamannafund eftir bardagann ásamt Dana White, forseta UFC, og nokkrum öðrum bardagamönnum sem kepptu.

Alexander Gustavson fékk einnig slík verðlaun, en 50 þúsund dalir eru rúmlega fimm og hálf milljón króna sem verður að teljast gott kaup fyrir fjögurra mínútna bardaga.

White tilkynnti einnig á fundinum að miðar í O2 höllina hafi selst upp á 36 klukkutímum og útsendingin hafi náð til 178 landa og 194 milljón heimila í Evrópu.

Þegar White var spurður um frammistöðu Gunnars sagði hann:

„Hann leit stórkostlega vel út í kvöld. Hugsið um það, hann er búinn að vera meiddur í töluverðan tíma, kemur til baka og berst við grjótharðan mann. Hann leit stórkostlega út og ég var hæstánægður með frammistöðu hans.“

Gunnar var spurður af blaðamanni hvort hann hefði áhuga á að berjast í Dublin í Írlandi í júlí. Áður en blaðamaðurinn kláraði spurninguna sagðist Gunnar vilja það en okkar maður hefur dvalið á Írlandi við æfingar í gegnum tíðina.

Þá var Gunnar spurður hvort hann hefði íhugað hvað hann myndi gera við milljónirnar fimm og hálfa.

„Ég er ekki viss. Það kemur í ljós þegar ég kem heim, en það verður eitthvað æðislegt,“ sagði Gunnar.

Blaðamannafundinn í heild sinni má sjá hér að neðan.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×