Enski boltinn

Drekarnir fyrstir til að vinna toppliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson í leik með Sundsvall Dragons.
Hlynur Bæringsson í leik með Sundsvall Dragons. Vísir/Valli
Hlynur Bæringsson var með tröllatvennu þegar að Sundsvall Dragons varð fyrsta liða í sænsku úrvalsdeildinni til að leggja Borås Basket að velli þetta tímabilið.

Borås hafði unnið fyrstu 22 leikina í vetur fyrir kvöldið en eftir jafnan fyrri hálfleik virtist toppliðið ætla að sigla fram úr.

En Íslendingaliðið Sundsvall spýtti í lófana í lokin og náði forystunni, 72-71, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Borås skoraði aðeins eitt stig eftir þetta og Jakob Örn Sigurðarson innsiglaði sigurinn endanlega af vítalínunni þegar lítið var eftir af leiknum.

Hlynur var bæði stiga- og frákastahæstur í liði Drekanna með sextán stig og fimmtán fráköst. Hann stal boltanum einnig fjórum sinnum og gaf tvær stoðsendingar.

Jakob Örn skoraði tíu stig í leiknum, tók fjögur fráköst og gaf eina stoðsendingu. Hann stal boltanum einnig fjórum sinnum. Ægir Þór Steinarsson lék ekki með Sundsvall vegna meiðsla.

Staða toppliðanna breyttist þó ekki í kvöld. Borås er enn á toppnum með 44 stig en Södertälje er í öðru sæti með 40 stig. Sundsvall kemur svo næst með 28 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×