Enski boltinn

Hefur ekki efni á sjálfum sér: „Þeir sögðu nei“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Robinson getur ekki keypt sjálfan sig í EAFC 25 leiknum.
Robinson getur ekki keypt sjálfan sig í EAFC 25 leiknum. Ed Sykes/Sportsphoto/Allstar Via Getty Images

Bandaríkjamaðurinn Antonee Robinson, vinstri bakvörður Fulham, fékk hart nei frá tölvuleikjaframleiðandanum EA þegar hann bað um að fá að spila sjálfum sér.

Uppfærð útgáfa af Robinson var gefin út í síðustu viku í leiknum EA FC 25, sem hét áður FIFA. Vinsælt er að spila hið svokallaða Ultimate Team í leiknum þar sem spilarar safna í lið og spila við leikmenn víða af úr heiminum. Þar eru uppfærðar útgáfur af ýmsum leikmönnum gefnar út vikulega.

Útgáfan af Robinson í EAFC sem hann sjálfur hefur ekki efni á.Skjáskot

Útgáfan af Robinson hefur verið býsna vinsæl frá því að hún var gefin út á föstudaginn síðasta en Robinson kveðst ekki hafa efni á sjálfum sér. Hægt er að kaupa leikmenn með rafrænni mynt sem nýtist aðeins innan Ultimate Team anga leiksins.

Robinson virðist ekki vera eins vel stæður í tölvuleiknum líkt og í raunheimum þar sem hann sendi ákall til EA í fyrrakvöld um það hvort hann gæti fengið sjálfan sig frá fyrirtækinu. Hann hefði hreinlega ekki efni á sjálfum sér. 150 þúsund einingar EAFC myntarinnar væri hreinlega of dýrt.

Robinson er talinn fá um 50 þúsund pund greidd vikulega frá Fulham, tæpar níu milljónir króna.

Robinson sagði svo frá því á samfélagsmiðlinum X í gær að hann hefði fengið hart nei frá tölvuleikjaframleiðandanum: „Snögg uppfærsla, þeir sögðu nei“.

Bandaríkjamaðurinn mun því þurfa að halda áfram safna fyrir tölvuleikjaútgáfunni af sjálfum sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×