Jafn­tefli niður­staðan í frá­bærum leik á Villa Park

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik kvöldsins.
Úr leik kvöldsins. EPA-EFE/TIM KEETON

Aston Villa og Liverpool gerðu 2-2 jafntefli í frábærum fótboltaleik á Villa Park í ensku úrvalsdeild karla.

Að sjálfsögðu var það Mohamed Salah sem kom gestunum yfir þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum. Diogo Jota átti þá frábæra sendingu inn á teig heimamanna og Salah skoraði framhjá Emiliano Martínez í marki Villa.

Heimamenn létu þetta ekki slá sig út af laginu og á 38. mínútu jafnaði Youri Tielemans með góðu skoti eftir að hann var réttur maður á réttum stað þegar boltinn hrökk til hans. Það stefndi svo allt í að staðan yrði jöfn 1-1 í hálfleik en allt kom fyrir ekki.

Tielemans fagnar með Marcus Rashford og Marco Asensio.EPA-EFE/TIM KEETON

Eftir frábæra sókn þegar uppbótartíminn var svo gott sem liðinn fékk Lucas Digne boltann úti vinstra megin. Fyrirgjöf hans endaði á kollinum á Ollie Watkins sem stangaði boltann af öllu afli í netið. Staðan því 2-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Diogo Jota hafði fengið gott tækifæri til að koma Liverpool yfir í stöðunni 1-1 og hann átti svo hörkuskot í slánna þegar klukkustund var liðin. Stuttu síðar jafnaði Trent Alexander-Arnold metin fyrir gestina með skoti sem fór af Tyrone Mings og í netið. 

Varamaðurinn Jacob Ramsey hélt hann hefði komið Villa yfir þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka en hann var fyrir innan og rangstaða dæmd. Donyell Malen fékk svo tækifæri til að tryggja Villa sigurinn en skot hans hitti ekki markið og niðurstaðan 2-2 jafntefli á Villa Park.

Liverpool er sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 61 stig að loknum 26 leikjum. Arsenal er í 2. sæit með 53 stig eftir að hafa leikið leik minna. Aston Villa er í 9. sæti með 39 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira