Handbolti

Strákarnir hans Patreks réðu ekki við Danina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen fagnar.
Mikkel Hansen fagnar. Mynd/AFP
Danir eru komnir áfram í milliriðil eftir fjögurra marka sigur á Austurríki, 33-29, í kvöld í annarri umferð A-riðils á Evrópumóti karla í handbolta í Danmörku.

Danir voru skrefinu á undan frá fyrstu mínútu og unnu sannfærandi sigur sem tryggir liðinu efsta sætið í riðlinum sama hvernig úrslitin verða í lokaumferðinni.

Mikkel Hansen fór á kostum í liði Dana og skoraði alls níu mörk í leiknum en þessi mikla skytta var með frábæra skotnýtingu í leiknum og þurfti bara tíu skot til að skora þessi mörk. Maximilian Hermann skoraði mest fyrir Austurríki eða fimm mörk.

Íslendingurinn Patrekur Jóhannesson þjálfar lið Austurríkis en liðið mætir Makedóníu í lokaleik sínum þar sem liðið þarf stig til þess að tryggja sig inn í milliriðilinn.

Austurríkismenn unnu tíu marka sigur á Tékkum í fyrsta leik en þeir áttu ekki möguleika á móti gríðarlega sterku dönsku liðið sem er á góðri siglingu í átta að öðrum Evrópumeistaratitilinum í röð.

Danir komust mest sjö mörkum yfir í leiknum en þeir voru með sex marka forskot í hálfleik, 18-12. Austurríkismenn gáfust þó aldrei upp og tókst að koma muninum niður í fjögur mörk fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×