Innlent

Fagnar ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu í landsdómsmálinu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, fagnar því að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ákveðið að taka kæru Geirs H. Haarde gegn íslenska ríkinu til meðferðar.

„Það að dómstólinn skuli taka málið til þessarar meðferðar hlýtur að fela í sér ákveðna viðurkenningu á því að til málsins gegn fyrrverandi forsætisráðherra hafi ekki verið stofnað með sanngjörnum eða réttmætum hætti. Það er mín persónulega skoðun og ég tel að réttarhöldin sem fóru fram yfir honum og yfir stjórnmálamanni eigi aldrei rétt á sér,“ segir Hanna Birna.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sent innanríkisráðuneytinu erindi vegna málsins og óskað eftir enskri þýðingu af niðurstöðum Landsdóms. Þá eru einnig sex spurningar lagðar fyrir stjórnvöld vegna kærunnar. Fjallað var um erindi Mannréttindadómstólsins á ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Mikilvægasta verkefnið núna er að setja í gang vinnu við að svara þessum spurningum dómstólsins með faglegum og fullnægjandi hætti. Við munum fara yfir þetta í ráðuneytinu með sérstökum sérfræðingum og leita okkur ráðgjafar í því til þess að tryggja að þetta verði vel unnið og hafið yfir allan vafa,“ segir Hanna Birna.

Hún fagnar því að dómstóllinn hafi ákveðið að taka málið til meðferðar. „Ég fagna því fyrir hönd Geirs H. Haarde. Að málið sé tekið fyrir með þessum hætti felur að mínu mati í sér ákveðna viðurkenningu á því að hann varð fyrir ranglæti,“ segir Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×