Innlent

Fimm Íslendingar keppa í MMA í kvöld

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Bjarki Ómarsson, Sunna Rannveig Davíðsdóttir og Björn Diego Valencia mun öll keppa fyrir hönd Mjölnis á Euro Fight Night í Dublin.
Bjarki Ómarsson, Sunna Rannveig Davíðsdóttir og Björn Diego Valencia mun öll keppa fyrir hönd Mjölnis á Euro Fight Night í Dublin.
„Það er búið að vera langur aðdragandi að þessu en við reynum alltaf að taka þriggja mánaða undirbúning fyrir hverja keppni,“ segir Jón Viðar Arnþórsson formaður Mjölnis, sem staddur er í Dublin á Írlandi.

Þar fer í kvöld fram svokallað Euro Fight Night og munu fimm Íslendingar keppa fyrir hönd Mjölnis í blönduðum bardagalistum eða MMA. Einn aðalþjálfari Mjölnis, John Kavanagh, stendur fyrir keppninni en allt í allt fara tólf bardagar fram.

Þetta er í fyrsta skipti sem Mjölnir sendir konu til keppni en Sunna Rannveig Davíðsdóttir mun berjast við Amöndu English frá Írlandi í kvöld. Jón Viðar telur Sunnu eiga mjög góða möguleika gegn Amöndu.

„Við erum mjög bjartsýn á þetta allt saman og hún á að eiga mjög góða möguleika. Sunna hefur barist nokkra bardaga, fimm kickbox muay thai bardaga í Tælandi og einn MMA bardaga og hún vann þá alla,“ segir Jón Viðar, og bætir við að fáir þoli högg frá Sunnu.

Auk Sunnu munu þeir Bjarki Ómarsson, Diego Björn Valencia, Bjarki Þór Pálsson og Egill Öyvind Hjördísarson berjast í kvöld.

Hópurinn undirbýr sig nú af kappi fyrir kvöldið. „Við erum búin að vera hér úti í tvo, þrjá daga núna og reynum alltaf að borða saman og sofa vel. Svo förum við í höllina á eftir og þar fara allir í læknisskoðun og farið verður yfir reglurnar. Að lokum verða allar hendur vafnar og þá erum við til í slaginn.“

Bardagarnir verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst útsending kl. 20.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×