Enski boltinn

Hverjir voru þessir huldumenn sem reyndu að semja um Herrera?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ander Herrera.
Ander Herrera. Mynd/AFP
Englandsmeistarar Manchester United voru á höttunum eftir mörgum leikmönnum í félagsskiptaglugganum sem lokaði í gær en á endanum náði félagið "bara" að ganga frá kaupum á Everton-manninum Marouane Fellaini.

Einn af þeim leikmönnum sem kom ekki í glugganum var Ander Herrera, miðjumaður Athletic Bilbao, en furðulegar fréttir bárust frá Spáni eftir að ljóst var að leikmaðurinn væri ekki á leiðinni til Englands.

Svo virðist vera að þrír jakkaklæddir menn hafi mætt í höfuðstöðvar spænsku deildarinnar til að reyna að ganga frá kaupum Manchester United á Herrera. BBC sagði seinna frá því að Manchester United hafi ekkert vitað af þessum mönnum og að þeir hafi ekki verið að vinna fyrir félagið. Nú bíða menn eftir því að fá að vita hverjir þessir huldumenn hafi í raun verið.

Athletic Bilbao hafnaði tilboði Manchester United í Ander Herrera í síðustu viku og félögin náðu síðan ekki saman um kaupverðið. Þessi huldumannasaga mun samt sjá til þess að þessi "næstum því" félagsskipti gleymast ekki í bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×