Sport

Gústaf missti af gullinu á lokasprettinum - myndir

Gústaf Ásgeir Hinriksson.
Gústaf Ásgeir Hinriksson. Mynd/Rut Sigurðardóttir
Gústaf Ásgeir Hinriksson og Björk frá Enni urðu að sætta sig við fjórða sætið í slaktaumatölti ungmenna á HM íslenska hestsins í Berlín en úrslitakeppnin fór fram í dag. Þau hreinlega misstu af heimsmeistaratitlinum á lokasprettinum.

Rut Sigurðardóttir, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins á mótinu, tók þessar myndir hér fyrir ofan.

Gústaf Ásgeir náði bestu einkunninni í forkeppninni og var efstur eftir frjálsu ferðina og hæga töltið. Gústaf og Björk urðu hinsvegar fyrir truflun í slaka tauminum og það kostaði þau verðlaunasætið.

Gústaf Ásgeir og Björk frá Enni voru með 8,50 einkunn fyrir frjálsu aðferðina og 8,00 í einkunn fyrir hæga töltið og því með góða forystu. Einkunnin fyrir slaka tauminn var hinsvegar aðeins 4,17 sem var mikið áfall fyrir íslenska hópinn.

Hin þýska Charlotte Passau á Una frá Kronshof varð heimsmeistari en þau fengu 6,92 í einkunn. Landi hennar Christopher Weiss á Víg frá Eikarbrekku varð annar með 6,84 í einkunn og í þriðja sætinu varð síðan hin austurríska Carina Perndl á Reidartýr frá Stefanihof en þau fengu 6,83 í einkunn.

Það er hægt að sjá öll úrslitin í slaktaumatöltinu inn á Hestafréttir.is eða með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×