Fótbolti

Real Madrid með tak á Barcelona

Messi og Pepe eigast við í dag.
Messi og Pepe eigast við í dag.
Real Madrid vann sinn annan sigur á Barcelona á innan við viku er liðin mættust í spænsku úrvalsdeildinni í dag. Sergio Ramos með sigurmarkið í 2-1 sigri Real. Real er engu að síður enn í þriðja sæti deildarinnar og er heilum 13 stigum á eftir toppliði Barcelona.

Real komst fljótt yfir þegar Benzema fékk frábæra sendingu fyrir. Hann lúrði á fjærstöng og mokaði boltanum í netið. Þetta var fjórða markið sem Benzema skorar í El Clasico en mörk hans í þessum leikjum höfðu aldrei áður dugað til sigurs.

Þetta var áttundi leikurinn í röð þar sem Barcelona fær á sig mark. Það hefur ekki gerst síðan árið 2008.

Barcelona var ekki lengi að jafna sig á markinu. Messi fékk stungusendingu, var einn gegn Ramos, kom skotinu á markið og jafnaði.

Þetta var átjánda mark Messi í El Clásico sem er metjöfnun. Alfredo di Stefano, goðsögn Real Madrid, hefur einnig skorað 18 mörk í leikjum þessara stórliða. Þetta var þess utan mark númer 50 á tímabilinu hjá Argentínumanninum og 16. leikurinn í röð í deildinni þar sem hann skorar. Það er met.

Tæpum átta mínútum fyrir leikslok komst Real aftur yfir. Modric tók þá hornspyrnu sem Sergio Ramos skallaði glæsilega í markið.

Leikmenn Barcelona virðast ekki vera að höndla mótlætið vel því þeir trylltust eftir leik. Markvörðurinn Victor Valdes gekk harðast fram í mótmælum við dómarann eftir leikinn og fékk þá að líta rauða spjaldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×