Innlent

Síðasta myndin af þúfunum þar sem eldsprungan opnaðist

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hér rifnaði jörðin upp á Heimaey aðfararnótt 23. janúar 1973. Myndin var tekin rúmum sólarhring áður. Þegar gosinu lauk var komið 50-70 metra þykkt hraun ofan á húsin á myndinni.
Hér rifnaði jörðin upp á Heimaey aðfararnótt 23. janúar 1973. Myndin var tekin rúmum sólarhring áður. Þegar gosinu lauk var komið 50-70 metra þykkt hraun ofan á húsin á myndinni.
Ljósmyndir sem taldar eru þær síðustu sem teknar voru fyrir gos á svæðinu austast á Heimaey þar sem gossprungan opnaðist aðfararnótt 23. janúar 1973 verða sýndar í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 í kvöld, sunnudag, að loknum fréttum klukkan 18.55.

Guðmundur E. Jóelsson átti myndavélina en í viðtali í þættinum greinir hann frá því að myndirnar voru teknar í gönguferð 5-6 frændsystkina af Kirkjubæjartorfunni sunnudaginn 21. janúar, aðeins einum og hálfum sólarhring áður en jörðin rifnaði þar upp. Guðmundur sést sjálfur hægra megin í rammanum á myndinni sem fylgir þessari frétt en Pétur Guðjónsson, frændi Guðmundar, hélt á myndavélinni og smellti af.

Guðmundur segir að myndin sé tekin nálægt Urðavita og er horft í átt að Kirkjubæjunum, yfir svæðið þar sem jarðeldurinn kom upp. Hann telur að myndin sé tekin mjög nærri þeim stað þar sem jörðin rifnaði og að sprungan hafi farið út í sjó við skúr sem ber við andlit hans, en þar var radíómastur.

Öll húsin sem sjást á myndinni brunnu á fyrstu dögum eldgossins og hraun rann svo fljótlega yfir húsin. Nú er svæðið undir 50-70 metra þykkum hraun- og öskulagastafla norður af hlíðum Eldfells.

Í þættinum „Um land allt" í kvöld rifja Eyjamenn upp minningarnar um þetta horfna svæði á Heimaey.

Hér að neðan eru tengingar inn á fyrri þætti, sem Stöð 2 hefur sýnt undanfarnar vikur um gosið, og umfjöllun um efni þeirra.


Tengdar fréttir

Lýsti yfir goslokum í ylvolgum gíg Eldfells

Eyjamaðurinn Svavar Steingrímsson var í hópi sex manna, undir forystu Þorbjörns Sigurgeirssonar prófessors, sem fyrstir fóru ofan í gíg Eldfells að kvöldi 2. júlí árið 1973 til að kanna hvort eldgosinu á Heimaey væri lokið.

Væri gaman að sjá barnavagninn eftir 40 ár

"Ég hefði nú gaman af því að sjá barnavagninn. Hann á að vera þarna," sagði Guðrún Ingibergsdóttir í þættinum "Um land allt" á Stöð 2 í kvöld, þar sem fjallað var um eldgosið á Heimaey.

Eyjamenn lýsa því hvernig var að vakna upp við eldgos

Þegar eldsprungan opnaðist á Heimaey þann 23. janúar fyrir fjörutíu árum í austurjaðri byggðarinnar þá var fjarlægðin frá næstu íbúðarhúsum litlu meiri en vegalengdin yfir Arnarhól í Reykjavík. 5200 manns í Vestmannaeyjum upplifðu þar einhverja ógnþrungnustu nótt Íslandssögunnar. Þennan atburð ætlar Stöð 2 næstu sunnudagskvöld að rifja upp í þættinum "Um land allt" með hjálp Eyjamanna sem stóðu í eldlínunni en fyrsti þátturinn var sýndur í kvöld.

Vitni að upphafi eldgossins - sáu jörðina rifna upp

Vestmannaeyingarnir Hjálmar Guðnason og Ólafur Gränz urðu þann 23. janúar árið 1973 vitni að því þegar gossprungan opnaðist austast á Heimaey og stóðu þeir aðeins um 200 metra frá jarðeldinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×