Innlent

Fann ekkert fyndið við Landsdóm og Nubo

Gunnar Björn Guðmundsson ætlar ekki að leikstýra Skaupinu aftur.
Gunnar Björn Guðmundsson ætlar ekki að leikstýra Skaupinu aftur. Mynd/Stefán
Gunnar Björn Guðmundsson, leikstjóri Áramótaskaupsins, segist vera sáttur við þau viðbrögð sem hann hafi fengið við Skaupinu. "Já já, ég er það," sagði hann þegar Vísir sló á þráðinn til hans í dag.

Hann segist þó ekki hafa sérstaklega verið að leita að viðbrögðunum á netinu síðan að Skaupið fór í loftið. "En ég er mjög sáttur við þau viðbrögð sem ég hef heyrt og kveðjur og þess háttar," segir hann.

Eiður Svanberg Guðnason, fjölmiðlarýnir með meiru, sakaði aðstandendur Skaupsins í pistli í dag um að leggja Eddu Sif Pálsdóttur, íþróttafréttamann á RÚV og dóttur útvarpsstjóra í einelti. Gunnar Björn hafnar ásökunum um slíkt. "Nei, ég er ekki sammála því," segir hann aðspurður út í málið.

Einhver af stærstu fréttamálum ársins, Landsdómsmálið og fyrirhuguð sala á Grímsstöðum á Fjöllum til Huangs Nubo, voru ekki til umfjöllunar í Áramótaskaupinu. Gunnar Björn segir ástæðuna einfaldlega hafa verið þá að ekki hafi fundist neitt fyndið við þessi fréttamál. "En það var alveg ofboðslega mikið af efni sem var skrifað hjá okkur sem fór ekki inn í Skaupið," segir Gunnar Björn. Hann tekur þó fram að Nubo hafi ratað inn í Skaupið í fyrra.

Gunnar Björn segir að til sé hálftími af myndefni sem tekinn var upp fyrir Skaupið en hafi ekki ratað þangað á endanum. Enn fleiri brandara hafi verið teknir skrifaðir sem hafi síðan ekki verið teknir upp. "Við gætum alveg gert þátt tvö," segir hann hlæjandi.

Þetta er í fjórða sinn sem Gunnar Björn leikstýrir Áramótaskaupinu en hann býst ekki við að gera það aftur. "Það er ekki planið allavega," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×