Fótbolti

Cristiano Ronaldo: Ég ætla að skora á móti United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Framtíð Cristiano Ronaldo verður áfram á milli tannanna á fólki enda hefur portúgalski knattspyrnumaðurinn tekið þá ákvörðun að ræða ekkert framtíð sína hjá félaginu.

Ronaldo er með samning við Real til ársins 2015 en vitað er af miklum áhuga franska félagsins Paris St-Germain á þessum 27 ára gamla leikmanni sem hefur verið lengi í hópi allra bestu fótboltamanna heims.

„Mér líður vel og ég er viss um að þetta ár verði betra hjá mér en síðasta ár. Ég er eins og alltaf tilbúinn að gera mitt besta og enn betur en á árinu 2012," sagði Cristiano Ronaldo við spænska blaðið AS.

„Ég er búinn að segja allt sem ég vil segja um samningamálin. Ég vil ekki ræða endurnýjun samningsins því það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli eru næstu leikir. Við erum að keppa í deildinni, bikarnum og Meistaradeildinni og það er mikilvægt að við stöndum allir saman," sagði Ronaldo.

„Við viljum ná fullkomni byrjun á árinu. Við eigum að vinna leikinn og ætlum okkur að byrja árið vel," sagði Ronaldo um leikinn á móti Real Sociedad um helgina.

Cristiano Ronaldo var einnig spurður út í leikina á móti Manchester United í í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Ég á enn marga góða vini í United-liðinu og mér þykir vænt um Manchester United því félagið gerði mikið fyrir minn feril. Stuðningsmennirnir þekkja mig vel og ég á marga vini í Manchester. Ég mun samt mæta til að berjast fyrir Real Madrid. Ég ætla að skora og vinna leikinn," sagði Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×