Innlent

Makríldeilan áfram í sama fari

Makríll Andrúmsloftið á fundinum var ekki óvinveitt en "viss þungi í mönnum“, að sögn aðalsamningamanns. fréttablaðið/óskar friðriksson
Makríll Andrúmsloftið á fundinum var ekki óvinveitt en "viss þungi í mönnum“, að sögn aðalsamningamanns. fréttablaðið/óskar friðriksson Mynd/Óskar P. Friðriksson
Ekki náðist samkomulag um skiptingu heildarafla í makríl á fundi strandríkja í London, en þriggja daga samningalotu lauk í gær.

Sigurgeir Þorgeirsson, aðalsamningamaður Íslands, segir það jákvæða við fundinn vera að samstaða hafi verið um nauðsyn þess að efla vísindalegan grunn veiðanna. Eins að ákveðið hafi verið að efla samstarf um eftirlit með uppsjávarveiðum í Norðaustur-Atlantshafi.

„En það ber einfaldlega of mikið á milli til þess að von sé að það náist saman um skiptingu aflans. Þetta situr í svipuðu fari," segir Sigurgeir, sem bætir því við að ekkert liggi fyrir um áframhald viðræðna.

Ísland lagði til á fundinum að öll strandríkin innan ESB, Noregur, Færeyjar auk Íslands, legðu fram nýjar tillögur um skiptingu á heildarafla í því augnamiði að þoka málum áfram, en það fékk ekki hljómgrunn.

Þá lagði íslenska sendinefndin til, sem bráðabirgðaráðstöfun, að heildarafli yrði ákveðinn í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og að heildarafli yrði ákveðinn 542 þúsund tonn. Ekki reyndist hljómgrunnur meðal strandríkjanna um slíka bráðabirgðaráðstöfun.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×