Innlent

Ætlar aftur út að hlaupa í dag

Markinu náð Hópur fólks hljóp til móts við René Kujan seinni partinn í gær og fylgdi honum á leiðarenda. Meðal þeirra var sundkappinn og Ólympíufarinn Jón Margeir Sverrisson. Kujan sjálfur var himinlifandi þegar áfanganum var náð.Fréttablaðið/pjetur
Markinu náð Hópur fólks hljóp til móts við René Kujan seinni partinn í gær og fylgdi honum á leiðarenda. Meðal þeirra var sundkappinn og Ólympíufarinn Jón Margeir Sverrisson. Kujan sjálfur var himinlifandi þegar áfanganum var náð.Fréttablaðið/pjetur
Tékkneska blaðamanninum René Kujan var ákaft fagnað í Elliðaárdalnum í gær þegar hann lauk tæplega 1.300 kílómetra hlaupi sínu umhverfis landið á þrjátíu dögum. Kujan hljóp rúmlega maraþon á hverjum degi og er fyrsti maðurinn til að hlaupa hringinn í kringum Ísland.

„Mér líður frekar vel, ég er hissa á hversu vel þetta gekk," sagði Kujan við komuna á sjötta tímanum í gær eftir að hann faðmaði konu sína.

Kujan lenti í bílslysi fyrir fimm árum og var sagt að hann yrði í hjólastól það sem eftir yrði. Annað hefur komið á daginn og ferðin nú var farin til að safna áheitum til styrktar fötluðu íþróttafólki á Íslandi og í Tékklandi.

Hann hefur komið fimm sinnum til Íslands og finnst gott að hlaupa í kuldanum. Stundum þótti honum samt nóg um. „Á Suðvesturhorninu lenti ég í hræðilegu slagviðri og var átta tíma með maraþonið vegna mótvinds."

Og er hann ekki þreyttur eftur þolraunina? „Jú, en ég held að ég fari nú samt aðeins út að hlaupa á morgun, kannski bara sex eða sjö kílómetra." - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×