Innlent

Mun skila skýrslunni í október

Sveinn Arason
Sveinn Arason
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hefur farið fram á það við Ríkisendurskoðun að stofnunin ljúki skýrslugerð vegna kaupa ríkisins á fjárhags- og mannauðskerfinu Oracle á árinu 2001, innleiðingar þess og reksturs, fyrir lok októbermánaðar. Stofnuninni var falið að gera skýrsluna í apríl árið 2004 en henni hefur enn ekki verið skilað.

Ásta sendi Sveini Arasyni ríkisendurskoðanda bréf vegna málsins í gær. Þar segir: „Ég tel að dráttur á gerð skýrslunnar sé mjög aðfinnsluverður. Slíkt má aldrei endurtaka sig. Lagaheimild til þess að óska skýrslna Ríkisendurskoðunar er einn mikilvægasti þátturinn í eftirlitshlutverki Alþingis."

Sveinn segir að Ríkisendurskoðun muni virða þann frest sem forseti Alþingis hefur gefið stofnuninni til að ljúka við gerð skýrslunnar. „Við erum þegar búin að gera ráðstafanir til þess að fá umsagnir frá þeim aðilum sem eiga rétt á að tjá sig um þetta efni. Það er því ekki ástæða til að ætla annað en að við munum skila skýrslunni innan frestsins."

Spurður um þá gagnrýni sem fram kemur á Ríkisendurskoðun í bréfi forseta Alþingis svarar Sveinn að hann hafi lýst sama sjónarmiði á fundi með fjárlaganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á þriðjudag. Þá segist hann ekki hafa í hyggju að segja af sér vegna málsins.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×