Innlent

Landsdómur sker í dag úr um sekt eða sakleysi Geirs

Geir H. Haarde mun mæta fimmtán dómurum sem sæti eiga í Landsdómi í síðasta skipti í dag, þegar dómur verður kveðinn upp í máli sem Alþingi höfðaði á hendur honum.Fréttablaðið/GVA
Geir H. Haarde mun mæta fimmtán dómurum sem sæti eiga í Landsdómi í síðasta skipti í dag, þegar dómur verður kveðinn upp í máli sem Alþingi höfðaði á hendur honum.Fréttablaðið/GVA
Landsdómur kemur saman í dag, væntanlega í síðasta skipti í langan tíma. Kveðinn verður upp dómur yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sem ákærður var af Alþingi fyrir það sem hann gerði, eða gerði ekki í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008.

Dómur yfir Geir verður kveðinn upp í dag klukkan 14 í Þjóðmenningarhúsinu. Báðar sjónvarpsstöðvarnar munu sýna beint frá uppkvaðningu dómsins og má búast við að fjölmargir muni fylgjast með þegar dómur fellur.

Geir hefur haldið fram sakleysi sínu og í dag kemur í ljós hvort Landsdómur tekur undir hans rök eða undir rök saksóknara Alþingis.

Hámarksrefsing við brotunum sem Geir er sakaður um er tveggja ára fangelsi. Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, fór þó ekki fram á svo þunga refsingu við aðalmeðferð málsins, og taldi eðlilegt að skilorðsbinda refsingu verði Geir fundinn sekur.

Tveggja vikna aðalmeðferð fyrir dóminum hófst 5. mars síðastliðinn. Geir gaf sjálfur skýrslu fyrir dóminum, og í kjölfarið fylgdu nokkrir af ráðherrunum sem sátu með honum í ríkisstjórn þegar bankarnir féllu. Bankastjórar föllnu bankanna báru einnig vitni fyrir dóminum, auk margra núverandi og fyrrverandi starfsmanna Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.

Framburður vitna í málinu var í ýmsar áttir, en flest áttu það sameiginlegt að telja að einhver annar en þau sjálf hefðu átt að bregðast við yfirvofandi hættu á fjármálakreppu í aðdraganda hrunsins. Mörg vitnanna voru þó sammála um að það hafi verið lítið sem Geir hefði getað gert á síðustu mánuðunum fyrir hrun til að afstýra hruninu eða draga verulega úr tjóninu sem af því hlaust.

Vitnaleiðslurnar eru þó aðeins hluti af því sem ákæruvaldið og verjandi Geirs byggja sinn málatilbúnað á. Bæði saksóknari og verjandi hafa auk þess lagt fram ógrynni gagna sem Landsdómur hefur nú legið yfir frá því aðalmeðferðinni lauk þann 16. mars síðastliðinn.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×