Innlent

Svavar og Helga tilnefnd

Svavar Hávarðsson, blaðamaður á Fréttablaðinu, er tilnefndur til verðlauna Blaðamannafélags Íslands fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2011. Tilnefninguna hlýtur Svavar fyrir viðamikla umfjöllun sína um díoxínmengun frá sorpbrennslustöðvum í Skutulsfirði, Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri.

Þetta er þriðja tilnefning Svavars frá árinu 2007. Þá var umfjöllun hans um sjóöryggi á siglingaleiðum við Suður- og Suðvesturland tilnefnd sem besta rannsóknarblaðamennskan, og árið 2009 var fékk hann tilnefningu fyrir umfjöllun um stjórnarskrármál.

Þá er Helga Arnardóttir, fréttakona á Stöð 2, tilnefnd fyrir umfjöllun um endurupptöku Geirfinnsmálsins meðal annars á grundvelli nýrra gagna sem hún kynnti til sögunnar.

Alls eru níu tilnefningar í þremur flokkum. RÚV, DV og Morgunblaðið fá tvær tilnefningar og Fréttablaðið, Stöð 2 og Fréttatíminn eina hver miðill.

Tilnefningar eru eftirfarandi:

Rannsóknarblaðamennska ársins:

Ingi Freyr Vilhjálmsson, DV, fyrir umfangsmikinn og ágengan fréttaflutning af uppgjöri og afleiðingum fjármálahrunsins.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kastljósi, fyrir áhrifaríka umfjöllun um læknadóp, útbreiðslu þess og skelfilegar afleiðingar.

Svavar Hávarðsson, Fréttablaðinu, fyrir fréttaflutning af mengun vegna díoxíns frá sorpbrennslum í Skutulsfirði, á Kirkjubæjarklaustri og í Vestmannaeyjum.

Besta umfjöllun ársins:

Helga Arnardóttir, Stöð 2, fyrir umfjöllun um endurupptöku Geirfinnsmálsins meðal annars á grundvelli nýrra gagna sem hún kynnti til sögunnar.

Skapti Hallgrímsson, Morgunblaðinu, fyrir umfjöllun um Helgu Sigríði Sigurðardóttur sem fékk hjartaáfall 12 ára gömul 2010.

Þóra Tómasdóttir, Fréttatímanum, fyrir umfjöllun um ofbeldi innan veggja Landakotsskóla.

Blaðamannaverðlaun ársins:

Helgi Bjarnason, Morgunblaðinu, fyrir vandaðan og margháttaðan fréttaflutning af nýjungum í atvinnulífi og stöðu og íbúaþróun á Vestfjörðum og í landbúnaði, meðal annars með ræktun repju til orkuframleiðslu.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, DV, fyrir fjölbreytt og mikilvæg skrif um samfélagsvandamál, svo sem ofbeldi, einkum er varða hlutskipti kvenna.

Jón Björgvinsson, Ríkisútvarpinu, fyrir einstakan fréttaflutning af vettvangi „arabíska vorsins", uppreisnum gegn einræðisstjórnum í Norður Afríku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×