Fótbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Norður-Írland 2-0

Stefán Árni Pálsson á Laugardalsvelli skrifar
Ísland vann virkilega mikilvægan sigur, 2-0, á Norður-Írum í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu kvenna sem fram fer árið 2013 í Svíþjóð. Íslenska liðið er því í efsta sæti riðilsins fyrir lokaleikinn gegn Norðmönnum sem fram fer á miðvikudaginn og dugar liðinu eitt stig í þeim leik til að tryggja sig á mótið.

Leikurinn hófst virkilega rólega og náði hvorugt liðið sér á strik fyrsta hálftíma leiksins. Íslensku stelpurnar voru hugmyndasnauðar og sóknarleikur þeirra ómarkviss. Þegar leið á fyrri hálfleikinn fóru stelpurnar hægt og rólega í gang og byrjuðu að spila boltanum vel á milli sín sem lið.

Þegar nokkrar mínútur voru eftir að fyrri hálfleiknum náði Hólmfríður Magnúsdóttir að skalla boltann í netið eftir frábæra fyrirgjöf frá Fanndísi Friðriksdóttir og var markið svo sannarlega verðskuldað. Staðan var því 1-0 í hálfleik og útlitið gott fyrir stelpurnar okkar.

Það voru aðeins liðnar tíu mínútur af síðari hálfleiknum þegar Ísland skoraði annað mark sitt í leiknum en þar var á ferðinni Fanndís Friðriksdóttir þegar hún hamraði boltann í netið af nokkuð löngu færi.

Íslensku stelpurnar voru þarna komnar í gang. Ísland réði ferðinni nokkuð þægilega það sem eftir lifði leiks og var sigur þeirra aldrei í hættu.

Leiknum lauk með fínum sigri Íslands og því algjör úrslitaleikur gegn Norðmönnum á miðvikudaginn en ef stelpurnar ná í jafntefli á útivelli eru þær á leiðinni á Evrópumótið í Svíþjóð.

Sigurður Ragnar: Það var markmiðið að vinna riðilinn
„Þetta var algjör úrslitaleikur fyrir okkur í dag og því gott að vinna," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari , eftir sigurinn í dag.

„Það var nokkuð mikið stress í liðinu til að byrja með en mér fannst sigurinn aldrei vera í hættu og liðið með fín tök á leiknum allan tímann."

„Manni leið alltaf vel á meðan leiknum stóð. Við náðum að skora mörk og halda markinu hreinu sem er alltaf gott."

„Þetta er fínt lið sem getur refsað manni og það vissum við. Norður-Írar unnu til að mynda Noreg í riðlinum og við vissum að þetta yrði ekkert gefins."

„Við gáfum það út fyrir löngu að liðið ætlaði sér upp úr riðlinum og hafna í efsta sæti, það ætlum við okkur ennþá."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu hér að ofan.

Margrét Lára: „Þetta er fáranleg spurning, auðvitað erum við nægilega góðar til að fara áfram."
„Rosalega mikilvægur sigur en þetta hefði alveg getað farið illa,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, eftir sigurinn.

„Við höfum alveg tapað stigum gegn verri liðnum en Norður-Írum og því gríðarlega mikilvægt að hirða öll stigin þrjú í dag.“

Margrét Lára hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli að undanförnu og byrjaði því ekki leikinn í dag.

„Það er oft verra að sitja á bekknum í svona leikjum en ég treysti þeim leikmönnum sem voru inná fullkomlega fyrir verkefninu.“

„Það er frábært að vinna svona leiki með tveimur mörkum gegn engu og halda markinu hreinu. Við gáfum í raun aldrei færi á okkur í dag og áttum þennan sigur svo sannarlega skilið.“

„Við ætlum okkur að vinna Norðmenn á miðvikudaginn og tryggja sæti okkar á Evrópumótinu í Svíþjóð árið 2013.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu með því að ýta hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×