Innlent

Kappræðurnar hófust á átökum á milli Þóru og Ólafs

Kappræður forsetaframbjóðenda í Hörpu á Stöð 2 og Vísi fór af stað með átökum á milli Ólafs Ragnars Grímssonar og Þóru Arnórsdóttur. Þannig var Andrea Ólafsdóttir spurð að því hvernig hún upplifði kosningabaráttuna. Hún sagðist hafa orðið vör við aukna hörku.

Þessu var Hannes Bjarnason sammála en Þóra kannaðist ekki við þessa auknu hörku.

Ólafur Ragnar sagðist svo ekki neita því að sumar stuðningssveitir hefðu farið mikinn í neikvæðri umræðu.

„Menn geta lesið það í Fréttablaðinu og ýmis ummæli á netinu," sagði Ólafur Ragnar. Spurður nánar út í þetta sagði hann að hver sá sem fylgist með gæti séð að hann yrði fyrir hörðum árásum, „sem koma fyrst og fremst úr sveit eins frambjóðanda," bætti hann við.

Þóra var svo spurð hvort hún tæki ummælin til sín. „Ég tek þetta ekki til mín. Það var Ólafur sjálfur sem byrjaði á því að tala um skrautdúkku og ráðast á manninn minn," sagði Þóra og vitnaði þar til viðtals í Sprengisandinum á Bylgjunni þar sem rætt var við Ólaf Ragnar í maí. Þá gagnrýndi hann fréttaflutning Svavars Halldórssonar, eiginmanns Þóru, og sagði fréttaflutning hans hafa verið óvandaðann um Ólaf sjálfann.

Hannes Bjarnason greip svo orðið og sagðist líta svo á að þarna væru gamlar flokkspólitískar línur að takast á og það væri augljóslega þörf á breytingum. Ari Trausti Guðmundsson sagði svo að átökin á milli Ólafs Ragnars og Þóru væri lýsandi fyrir átakasamfélagið Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×