Innlent

Flestir vilja takmarka setu forseta

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Rúm sextíu prósent þeirra sem tóku þátt í könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins á dögunum telja að takmarka beri þann fjölda kjörtímabila sem forseti Íslands getur setið. Það kemur ekki á óvart að mest er andstaðan við slíkt á meðal stuðningsmanna Ólafs Ragnars Grímssonar.

Þeir sem vilja takmarka setu forsetans eru þó ekki á einu máli um hve lengi hann geti gegnt embættinu. Fjögur prósent þeirra sem tóku afstöðu vilja setja mörkin við eitt kjörtímabil, Nítján prósent við tvö kjörtímabil og tuttugu og sjö prósent vilja að forseti geti aðeins setið þrjú kjörtímabik. Átta prósent nefndu síðan fjögur kjörtímabil og eitt prósent nefndi fimm eða fleiri kjörtímabil.

Þrjátíu og níu prósent aðspurðra voru hinsvegar á því að engin takmörk ættu að vera á því hve lengi forseti sitji í embætti.

Þegar litið er til þess hvaða frambjóðanda menn styðja í kosningunum kemur ekki á óvart að fimmtíu og sjö prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson vilja engin takmörk í þessum efnum. Átján prósent stuðningsmanna Ólafs segjast reyndar vilja setja mörkin við þrjú tímabil, en nái Ólafur Ragnar kjöri í kosningunum sem fram undan eru, mun hann hefja sitt fimmta kjörtímabil.

Á meðal óákveðinna kjósenda virðist einnig ríkur vilji til að takmarka setu forsetans, en sextíu og fimm prósent þeirra vill einhverskonar mörk í þessu sambandi. Þeir sem segjast ekki ætla að taka þátt í kosningunum eða skila auðu eru einnig hallir undir takmarkanir, sextíu prósent þeirra vilja festa það í lög hve lengi forseti geti setið á Bessastöðum.

Hringt var í 1500 manns þann 13. og 14. júní síðastliðinn. 88% tóku afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×