Innlent

Skekkja í forsetakönnun - kjósendur eldri en 67 ára ekki með

Boði Logason skrifar
Bessastaðir
Bessastaðir
„Þetta er kerfisbundin skekkja, ég hefði haldið að aldursmarkið þyrfti að vera hærra," segir Hulda Þórisdóttir, lektor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Í nýlegri könnun sem MMR framkvæmdi á dögunum um fylgi við forsetaframbjóðendur var úrtakið einungis fólk á aldrinum 18 ára til 67 ára.

Þeir sem eru eldri en 67 ára voru ekki spurðir út í afstöðu sína, eða um 15 prósent kjósenda.

Hulda segir að úrtakið endurspegli ekki þýðið, sem í þessu tilviki eru þeir sem hafa kosningarétt á Íslandi. „Við vitum til dæmis að eldra fólk eru yfirleitt öflugustu kjósendurnir og að sjálfsögðu dreifast atkvæði eldri kjósenda ekki nákvæmlega eins og þeirra sem þrítugir eru. Og það er sérstaklega viðbúið í þessum kosningum," segir Hulda.

Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar í gær á heimasíðu MMR og samkvæmt þeim mælist Þóra Arnórsdóttir með 43,4 prósent atkvæða og Ólafur Ragnar með 41,3 prósenti. Í úrtakið voru valdir einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Svarfjöldinn var 972 einstaklingar.

Hulda Þórisdóttir, lektor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.mynd/365
Í könnunni var spurt: „Eftirfarandi hafa lýst yfir framboði til embættis forseta Íslands. Hvert þeirra myndir þú kjósa ef kosið yrði til forseta í dag?"

Svarmöguleikar voru nöfn ofangreindra frambjóðenda, birt í tilviljunarkenndri röð, ásamt: Skila auðu, myndi ekki kjósa, veit ekki/óákveðinn og vil ekki svara.

Fjöldi þeirra sem tók afstöðu til spurningarinnar var 78,2% , aðrir svöruðu „skila auðu" (2,3%), „myndi ekki kjósa" (1,1%), „veit ekki/óákveðin(n)" (15,7%) og „vil ekki svara" (2,7%).

Tekið skal fram að á heimasíðu MMR kemur fram að einungis hafi kjósendur á aldrinum 18 til 67 verið spurðir út í afstöðu sína.

Könnunin á heimasíðu MMR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×