Innlent

Þóra Arnórsdóttir: Auðmjúk og þakklát

Þóra Arnórsdóttir.
Þóra Arnórsdóttir.
„Þetta kom vissulega á óvart því við erum rétt að fara af stað. Við erum auðmjúk og þakklát, það eru allavega tilfinningarnar sem við finnum á þessum morgni," segir Þóra Arnórsdóttir, fréttamaður og forsetaframbjóðandi, en hún og Ólafur Ragnar Grímsson forseti njóta jafn mikils fylgis kjósenda, samkvæmt könnun Fréttablaðsins, sem gerð var í gærkvöldi og í fyrrakvöld.

Bæði mælast með 46 prósenta fylgi, en aðrir frambjóðendur fá innan við þriggja prósenta fylgi. 65 prósent aðspurðra tóku afstöðu. Ólafur nýtur meira fylgis á landsbyggðinni og meðal karla, en Þóra fær meira fylgi á höfuðborgarsvæðinu og meðal kvenna.

Meirihluti Sjálfstæðismanna styður Ólaf, Meirihluti Vinstri grænna styður Þóru, afstaða Framsóknarmanna er til helminga, en Þóra nýtur yfirburðafylgis meðal Samfylkingarfólks. Þessi niðurstaða kemur stjórnmálaskýrendum á óvart, og Þóru líka. Hún er engu síður róleg yfir niðurstöðunni.

„Við erum þakklát og glöð en alveg róleg yfir þessu," segir Þóra sem bætir við að það sé gott að fá slíka hvatningu sem hún segir að sé staðfesting á þeim meðbyr sem hún finni fyrir.

En verkið er rétt að hefjast að sögn Þóru, „nú er það bara að fara og hitta kjósendur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×