Innlent

Vonuðu að lausafjárkreppan væri að baki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbankans.
Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbankans.
Landsdómur hringdi í Halldór J. Kristjánsson, annan af fyrrverandi bankastjórum Landsbankans, á öðrum tímanum í dag. Halldór er í Kanada vegna starfa sinna og átti ekki heimangengt í dóminn.

Halldór sagði meðal annars að á vormánuðum, í apríl og maí, 2008 hefðu menn haft vonir um það að lausafjárkreppan væri brátt að baki og það horfði til betri vegar í efnahagsmálum í heiminum. En um hásumarið hefði allt horfið aftur til verri vegar.

Halldór sagði að Landsbankinn hefði haft áform um að færa Icesave-reikninga Landsbankans inn í dótturfélag en FSA, breska fjármálaeftirlitið, hefði dregið lappirnar i þeim efnum. Þeir hafi gert óraunhæfar kröfur um flutninga á fjármagni frá móðurfélagið Landsbankans yfir í dótturfélag Landsbankans í Bretlandi.

Símasambandið við Halldór var afar slæmt og mátti greina nokkra óþreyju vegna þessa í dómssal. Halldór er fyrsta vitnið sem gefur skýrslu í gegnum síma. Önnur vitni hafa mætt fyrir dóminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×